skip to Main Content
Ferðalagadraumórar

Ferðalagadraumórar

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá elska ég að ferðast – og lífið mitt verður oft mjög grátt ef ég er ekki að bíða eftir næstu utanlandsferð. Núna er einmitt þannig tími því ég er að safna mér fyrir íbúð/húsi. Þannig ég ætla aðeins að leyfa mér að dreyma og deila því með ykkur hér í þessari færslu.

Ég fór í fyrsta skipti til Bandaríkjanna fyrr á árinu, ég varð mjög heilluð og næsti áfangastaður sem mig langar að heimsækja í Bandaríkjunum er klárlega Florida. Í rauninni langar mig bæði mjög mikið til Miami og Orlando en ég held að Orlando verði fyrir valinu því Kobba, vin okkar Arons sem er mjög góður ferðafélagi langar mjög mikið til Orlando að skoða skemmtigarðana. Þá einna helst Universal Studios og að sjálfsögðu Disney world. Ég er nú ekki síður spennt fyrir því – þó ég sé nú aðeins meira spennt fyrir sólinni og Mall of America. Orlando er líka þannig upp byggt að það er mjög langt á milli staða – svo til þess að fá sem mest út úr heimsókninni þarf maður eiginlega að hafa bílaleigubíl. Sem mér finnst einstaklega spennandi, mér finnst mjög gaman að leigja bíla í útlöndum og að geta farið hvert sem er.

Síðasta sumar fórum ég og Aron í interrail um Evópu – bakpokaferð. Mér fannst mjög gaman að prufa að fara í svona langa ferð og skoða marga ólíka menningarheima. Ég væri sko alveg til í að fara í svipaða ferð – en kíkja þá til Asíu. Staðirnir sem mig langar einna helst að heimsækja þar eru til að mynda Tæland, Dubai, Indland, Kuala Lumpur, Tókýó, Balí og Seoul í Suður Kóreu. Ég fíla bakpokaferðalags-lífsstílinn ekki síður heldur en ferðatösku og kíkja í mollið lífsstílinn. Það er eitthvað svo æðislegt við að vera alveg í núinu – ekki hlaupandi milli búða heldur bara að lifa og njóta. Það má þó alveg fylgja sögunni að mig langar líka mjög mikið að fara í bakpokaferð um Suður-Ameríku. En það verður ábyggilega ekki fyrr en mikið seinna á lífsleiðinni.

Ég hef aldrei komið til London. Ég hef samt farið til Bretlands, bæði til Birmingham og Manchester. Ég elskaði Manchester og gæti alveg ímyndað mér að fara þangað aftur en maður verður nú að koma til London, er það ekki? Ég myndi örugglega vera bara í fáa daga á mjög góðu hóteli, borða gott, versla, kíkja í spa, skoða borgina, skoða söfn og hafa það gott. Stutta og góða borgarferð með afslöppunarívafi. Ég held að það gæti ekki klikkað, ég myndi helst vilja fara þangað að vori eða hausti til. Mér finnst frekar óþægilegt að vera í stórum og miklum stórborgum um hásumar, því komst ég að í Evrópureisunni.

Auðvitað er þessi listi ekki tæmandi en þetta er svona það sem ég stefni að í nánustu framtíð. Mér heyrist samt á Aroni og Kobba að ég fari fljótlega í ferðalag til Póllands. Þeim langar mjög mikið að sjá Auschwitz og njóta þess hvað það er bæði ódýrt að fljúga og vera í Póllandi. Þó það sé kannski engin draumaferð þá held ég að það gæti verið mjög fróðlegt og gaman að kíkja til vinalands okkar, Póllands!

Takk fyrir mig!
Svandís Þóra

Back To Top
×Close search
Search