skip to Main Content
Að Búa Til Sinn Eigin Tilgang

Að búa til sinn eigin tilgang

Við höfum öll mismunandi tilgang – yfirleitt tilgang sem við höfum búið til í kringum okkur. Sérsniðinn af okkar lífi og aðstæðum. Atvinna, skóli, afkvæmi, fjölskylda, vinir og samfélagið sem við búum í mótar oft okkar tilgang en þó ekki alltaf – sérstaklega ef þessir þættir eru af skornum skammti í lífi manns.

Finnst þér þú tilgangslaus? Búðu þér til þinn tilgang! Mannskepnan er flókið fyrirbæri sem fúnkerar ekki vel ef tilfinning um tilgangsleysi tekur yfir – trixið er að búa til sinn eigin tilgang.

Leggja sig fram í því sem maður gerir

Að gera sitt allra besta í öllu sem maður tekur sér fyrir hendur og að leggja stund á það sem skiptir mann máli kemur manni vel áfram. Tengjast fólki, mynda heilbrigt samband við vinnuna sína og gera hana af heilum hug, vera gott foreldri, rækta vinabönd og leggja sitt af mörkum í samfélaginu. Það geta þetta allir – ef hugarfarið er rétt.

Hafi fólk lent í miklum áföllum í gegn um lífið eða þurft að takast á við kvíða eða geðdeyfð er virkilega gott að vinna með það og huga að andlegu hliðinni, setja sér markmið að vinna í sjálfum sér og standa við það. Því ef maður ætlar að fara vinna út á við þá gengur það tæplega ef allt er í hönk inn á við. Það sniðugasta sem fólk getur gert í þeim aðstæðum er að leita sér hjálpar hjá sérfræðingum. Starfsheitin þeirra væru ekki lögvernduð ef þau myndu ekki gera neitt gagn. Nýtum okkur lausnir sem eru í boði. Blanda af meðferð með sérfræðingum og markmiðaðri sjálfsvinnu er tvíeyki sem á ekki að geta klikkað – en gleymum því ekki að árángur fæst ekki yfir nótt. Það getur tekið langan tíma að vinna í sjálfum sér og læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Að láta gott af sér leiða

Eitt af því sem mér finnst veita sem mesta endurgjöf hvað varðar minn tilgang er að láta gott af mér leiða. Hvernig sem manni hentar að gera það. Að láta gott af sér leiða er mjög vítt hugtak. Allt frá því að gefa peninga til góðgerðarmála yfir í að hrósa næstu manneskju. Ef maður á ekki pening til að gefa í góðgerðarmál þá eru svo margar leiðir sem hægt er að fara.
Til að mynda ef atvinnuleysi hrjáir er mjög sniðugt að skoða sjálfboðaliðastarf – hér er síða með hugmyndum af sjálfboðaliðastarfi á Íslandi : https://attavitinn.is/samfelagid/felog-og-hopar/sjalfbodavinna-innanlands/.

Ég fæ mánaðarlega kröfu í heimabankann frá bæði SOS barnaþorpunum og rauða krossinum. Upphæðin þarf ekki að vera mikil. Lægsta upphæðin í mánaðarlegum greiðslum hjá rauða krossinum eru 1500.- og ég held að hægt sé að semja um hvaða upphæð sem er hjá SOS barnaþorpunum og fá greiðslukröfu í heimabanka mánaðarlega. Eins og þið sjáið þarf upphæðin alls ekki að vera mikil ef buddan er tómleg.

Eins og ég kom inn á áðan er hugtakið vítt. Fyrir mér er að hrósa náunganum og sýna góðvild í garð annarra að láta gott af sér leiða. Vera kurteis, hjálpa til og hrósa. Brosa til náungans. Bros getur dimmu í dagsljós breytt. Við erum aldrei í það miklum flýti að við getum ekki haldið hurðinni fyrir næsta mann. Ef við opnum hugann fyrir tækifærum til að hrósa fólki birtast þau allstaðar. Er stelpan á afgreiðslukassanum á bónus með fallegt hár? Segðu henni það. Er kennarinn þinn fræðandi og áhugaverður? Segðu honum það. Er mamma þín góð og falleg kona? Segðu henni það. Er einhver alltaf til staðar fyrir þig? Segðu henni/honum það. Ef við gefum af okkur jákvæðni fáum við hana til baka.

Markmiðasetning

Að hafa markmið og vinna stefnumiðað að þeim finnst mér mjög mikilvægt. Hvort sem markmiðin snúa að andlegri heilsu, heilbrigðum lífsstíl, ræktun á tengslum við aðra eða vinnutengd markmið. Fyrsta skref er að finna sér markmið sem manni langar að vinna að. Skref númer tvö er að leggja höfuð í bleyti hvernig skal ná markmiðunum. Gott er að hafa markmiðin vel sundurliðuð og hugsa sig vel um hvað þarf að gera til að ná þeim.  Oft er talað um að markmið þurfi að vera SMART.

Ég fékk myndina lánaða frá heimasíðunni hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð – www.mh.is

Bucket list

Að eiga bucket lista (lista af hlutum sem maður vill gera áður en maður yfirgefur þessa jarðvist) er sennilega það sniðugasta sem ég veit. Þegar ég fór að pæla í þessu fyrst þá settist ég niður og ætlaði að skrifa niður 100 hluti sem ég vildi gera áður en ég myndi deyja – ég náði reyndar bara að skrifa 87 atriði niður – stór sem smá. Allt frá því að baka flotta köku yfir í að fara í fallhlífarstökk. Öll atriðin áttu það sameiginlegt að vera eitthvað sem ég hef áhuga á að gera eða búa til einhverntíman. Ég skrifaði listann í febrúar og núna 8 mánuðum seinna er ég búin að ná að haka við 9 hluti á listanum. Bucket listi gæti orðið þinn besti vinur ef þú átt erfitt með að koma hlutum í verk – þó þig langi mikið til þess. Það er eitthvað við það að strika út af bucket listanum – tilfinningin er ólýsanleg. Ég er mikill lista-perri og nota lista óspart. Ég geri verkefnalista í vinnuni og strika út af þeim á hverjum degi. Það hjálpar mér að hafa yfirsýn og betri tök á öllu því sem ég kem í verk og þarf að koma í verk. Og þá gleymist ekkert!

Ég veit ekkert sem ýtir betur undir að ég framkvæmi hlutina en að skrifa þá niður á verkefnalista. Það sama á við um bucket listann – nema hann nær yfir allt lífið. Stór partur af mínum tilgangi á þessari jarðvist er að elta draumana mína, gera það sem ég hef áhuga á og finnst skemmtilegt. Mér finnst ólíklegt að einhver geti neitað því að það sé tilgangur sem vert sé að vinna með.

Vert er að taka fram að ég er ekki menntaður sérfræðingur en ég hef gengið í gegnum tilfinningu um tilgangsleysi – öll þessi atriði hjálpuðu mér og ættu því að geta hjálpað einhverjum öðrum líka.

Takk kærlega fyrir mig!

Back To Top
×Close search
Search