skip to Main Content
Áhrif Hugarfars á Sjálfsmynd

Áhrif hugarfars á sjálfsmynd

Í gær var ég að skoða í gegnum myndirnar í símanum mínum og sá myndir síðan fyrr á árinu 2018. Ég skammast mín ekkert fyrir að segja að mér fannst ég líta mjög vel út á þeim myndum.

Þá var ég mjög jákvæð og leið mjög vel andlega. Ég byrjaði árið 2018 af fullum krafti og var mjög jákvæð enda hafði mér gengið ótrúlega vel bæði í ræktinni og í lífinu.

Júlí 2018

Tilgangur minn með þessari færslu er þó ekki að ræða árangurinn minn líkamlega,
fremur vil ég koma inn á hugarfarslegan árangur minn í átt að bættri sjálfsmynd.

Árið 2018 var tiltölulega erfitt ár þó svo að það hafi byrjað ágætlega. Mér leið vel og ég var mjög ánægð með sjálfan mig, ég var að ná árangri og var sátt með mitt. Ég vann á landspítalanum fram í lok mai og skipti svo um vinnu vegna þess að ég var þreytt á að keyra reykjanesbrautina til vinnu. Ég sá eftir tímanum sem að það tók mig að keyra á milli sem ég annars gæti varið í annað.

Ég byrjaði að vinna á lítilli starfstöð hér inn í njarðvík og eftirá að hyggja hefði ég betur sleppt því. Ég fann að mórallinn þarna var vondur og starfsfólk talaði illa hvert um annað. Ég hélt þó reynslutímann út og fékk svo áfram 2 mánaða lausráðningu aðalega til þess að hafa tekjur og mér þótti vænt um skjólstæðinga mína. Um miðjan Nóvember fékk ég síðan ekki lengri starfsamning af mjög óljósum ástæðum, það fór þar tvennum sögum af. Þáverandi yfirmaður minn gat ekki svarað mér skýrt hversvegna ég fengi ekki starf áfram. Í fyrstu var mér brugðið en svo var ég fegin að komast undan móralnum þarna. Hún sagðist ekki geta sett út á mig sem starfsmann en gæti ekki haft mig í vinnu lengur og bauðst til þess að gefa mér góð meðmæli. Ég hef lúmskan grun um ástæður þess að ég fékk ekki lengri starfssamning, en ég nenni ekki að velta mér upp úr því lengur.

En frá 1. Desember hef ég verið tekjulaus, ég missti af umsóknarfrestinum um námslán þar sem að ég bjóst ekki við því að verða tekjulaus. Ég er í 100% háskólanámi, með barn og heimili. Það hefur sett mikið strik í reikninginn og breytir aðeins því sem ég sá fyrir mér.

Þetta ásamt mörgum öðrum hlutum markaði hvernig árið hafði gengið hálfpartinn á afturfótunum. Mér fór að líða illa og ég reyndi allt sem ég gat að halda í það jákvæða sem væri að gerast í kringum mig.

Mér fór að líða verr með sjálfan mig og fannst árangur minn þar að leiðandi minni. Þegar ég leit í spegilinn þá sá ég ekki það sama og áður, mér fannst ég hafa fitnað og mér fannst ég líta illa út. Mér leið illa og óhjákvæmilega hafði það áhrif á mína sjálfsmynd.

Hvernig ég var farin að hugsa til sjálfs míns var farið að hafa áhrif á það hvernig ég leit á mig sem einstakling. Þó svo að lítið annað bæri þess merkis að eitthvað hafði breyst annað en líðan mín. Hugur okkar er magnað fyrirbæri sem að hefður oft tilhneigingu til þess að einblína á það sem okkur mistekst og kemur þar að leiðandi í veg fyrir að við sjáum litlu sigrana. Að við sjáum öll litlu skrefin sem að við tökum í áttina að þar sem okkur langar að vera.

Ég er ánægð með mig og er spennt fyrir þessu ári, ég ætla mér að læra að elska sjálfan mig fyrir það hvernig ég er. Burt séð frá því hvernig mér gengur að létta mig – enda hefur það verið löng leið og ég er hvergi nærri hætt. Ég ætla að hætta að berja mig niður fyrir það sem er alls ekki í mínum höndum að stjórna. Ég ætla mér frekar að einblína á og skrifa niður það sem að gengur vel.

Myndir segja meira en 1000 orð. Á meðan hugurinn blekkir okkur sjáum við staðreyndir á myndunum sem við tökum.

Þessvegna finnst mér svo mikilvægt að taka myndir, því ég get ekki ennþá treyst því að ég sjálf segi mér sannleikann. En því er hægt að vinna í og breyta, mér hlakkar til að halda áfram minni leið í átt að betri líðan. Og þó svo að ég sé í fjárhagsvandræðum núna að þá ætla ég ekki að leyfa því að hafa áhrif á mig. Ég ætla að vinna úr því með jákvæðu hugarfari 🙂

Kveðja,

Katrín Helga

Katrín Helga - 25 ára - Móðir - Sjúkraliði - Stúdent - En mest að öllu ég sjálf :)

Back To Top
×Close search
Search