skip to Main Content
Ég Var Komin Með Nóg

Ég var komin með nóg

Fyrir nokkrum dögum síðan spurði ég á Instagramsíðunni minni hvað fólk vildi að ég myndi skrifa um næst – allt var lífsstílstengt og ein spurningin vakti áhuga minn mest:

Af hverju breytti ég um lífstíl ?

Ég var komin með ógeð á því að gefast alltaf upp.
Ég var komin með ógeð á að fara illa með sjálfa mig.
Ég var komin með ógeð á því að vilja alltaf passa inn í eitthvað ákveðið líkamsform.
Ég var komin með ógeð á því að líta í spegilinn og finnast aldrei neitt nógu gott.
Ég var komin með ógeð á að rakka sjálfa mig niður.
Ég var komin með ógeð á því að vera með óraunhæf markmið til sjálfs míns.
Ég var komin með ógeð á að vorkenna sjálfri mér.
Ég var komin með ógeð á skyndilausnum.
Ég var komin með ógeð á líferninu mínu.
Ég var komin með ógeð á því að stara á vigtina.
Ég var komin með ógeð á því að gefast upp.
Ég var komin með ógeð á því að stunda líkamsrækt af röngum forsemdum.

Mynd af mér árið 2014 

Ef að við byrjum frá byrjunarreit ;

Það var árið 2014 held ég alveg ábyggilega – fyrir 5 árum síðan. Ég var búin að eiga við mikil andleg vandamál í ca 2 ár (2012-2013). Var búin að vera hjá sálfræðingi á Akureyri og var búin að vera í þónokkurn tíma á þunglyndis- og kvíðalyfjum. Ég var búin að vera í bölvuðu veseni með sjálfa mig og gat ekki sofið á nóttunni vegna kvíða. Ég var með svo lélega sjálfsmynd að það má liggur við líkja því við sjálfshatur. Ég ákvað að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum því ég var orðin eitthvað um 120 kílóin. Og byrjaði á fyrstu skyndilausninni. Borða sjeik í morgunmat og hádegismat og kjúklingasalat í kvöldmat – ætlaði nú aldreilis að verða mjó og flott á eins stuttum tíma og ég gæti. Gafst fljótlega upp því þetta var ekki að gerast nógu hratt.

Fékk viðurkenningu fyrir að léttast um 5 kg

Svo leið og beið og það komu áramót árið 2015– næs. Núna ætlaði ég sko að verða mjó!  Byrjaði á carb nite og fór og hljóp spretti svona 1-2 í viku á morgnana. Át purusteik og bernes í hádeginu alla daga. Guð ég fæ bara klígju af því að hugsa um þetta. En ég náði svo sem að léttast um ca 10 kíló sem komu aldrei til baka, því að hugsunin til míns sjálfs fór skánandi. Ég fór á raja yoga námskeið í jógasetrinu og þar kviknaði áhugi á að byggja upp sjálfsmyndina mína.

Árið 2015 þá léttist ég heilan helling. Fæðið mitt samanstóð eiginlega af mat úr vinnuni og fiski sem ég borðaði heima. Ég átti ekki vigt og var ekkert að spá í hvað ég væri þung. En ég er nokkuð viss um að ég hafi verið léttari en ég er núna, en var samt svo aum og í ömurlegu formi. Reykti allavega pakka af sígarettum á dag og svona skemmtilegheit – var reyndar búin að reykja sígarettur síðan 17 ára (þá 21 að verða 22 ára). Mikil drykkja einkenndi þetta tímabil og bara ömurlegur lífsstíll ef ég á að vera alveg hreinskilin. 

Léttari en með mjög óheilbrigðan lífsstíl

1 janúar 2017 ætlaði ég nú aldeilis að taka málin í mínar eigin hendur og fara að æfa eins og brjálæðingur, því ég ætlaði að verða mjó og getað spókað mig í sólinni á tenerife um sumarið. Ég æfði og æfði eins og brjálæðingur og tók klemma samhliða því (töflur sem eru notaðar sem asmalyf fyrir hesta en gefur víst auka brennslu ef mannfólk tekur þær) – guð minn almáttugur. Ég léttist um einhver 8 kíló ca frá janúar-apríl. Í páskafríinu tók ég mér pásu og svo fannst mér ég ekkert þurfa að byrja aftur því ég væri hvort eð er ekkert mjó. Ég var komin með meiðsli í öxl og hné vegna ofreynslu ásamt því að klemminn hafði þurrkað upp liðina hjá mér. Æðislega heilbrigt er það ekki? Enn og aftur var ég að reyna að gera eitthvað í mínum málum á kolröngum forsendum. Og plís þið sem lesið þetta aldrei nota klemma það getur haft stórhættulegar afleiðingar sem eru lengi að jafna sig!!

Frá apríl ’17 til janúar ’18 æfði ég ekkert. En hafði á bakvið eyrað að mig langaði að verða heilbrigð og geta gert hluti eins og að hlaupa, gera armbeygjur og upphýfingar. Basicly geta gert þessa hluti sem gætu reynst manni vel í daglegu lífi og ef svo óheppilega vildi til að maður væri í lífshættu (væri glatað að hanga fram af fjallsbrún og geta ekki hýft sig upp til að bjarga sínu eigin lífi). Já ég veit, frekar djúpt. Ég byrjaði samt í sálfræðimeðferð í október 2017 sem átti eftir að hafa svo góð áhrif á sjálfsmyndina mína og mína löngun til að vera bara heilbrigður einstaklingur, andlega og líkamlega.

Í sálfræðimeðferðinni fékk ég áhuga á alskonar andlegum og félagslegum pælingum, fór aðeins að lesa mig til og svona um “mind tricks” eða einhversskonar sjálfshjálp. Í desember ‘17 sá ég svo manneskju á instagram eða snapchat ræða um afhverju fólk dettur út úr heilbrigðum lífsstíl – byrja of hratt með óraunhæf markmið, ætla að breyta öllu á einum degi, berja sjálfan sig niður fyrir mistök, gefast upp vegna þess að óraunhæfu markmiðunum var ekki náð með einum andardrætti og fleira. Mér finnst mjög leiðinlegt að geta ekki nafngreint manneskjuna því ég man ekkert hver það var. Þessi manneskja kveikti á einhverri peru hjá mér í sambandi við þetta og auðvitað á hún stórt hrós skilið.

En ég lagði það ekkert sérstaklega á minnið þá, því ég vissi ekki að ári seinna yrði ég henni svona æfinlega þakklát.

 Í byrjun janúar 2018 ákvað ég að byrja að hreyfa mig og eiga heilbriðgari lífsstíl á allt öðrum forendum en nokkurntíman áður, til að verða heilbrigð. Ég ákvað að byrja hægt eða hreyfa mig tvisvar sinnum í viku og borða aðeins hollar. Reyna að sleppa sætindum og kannski alveg hvítu brauði. Búa mér til nesti í vinnuna og hætta að falla í þá gryfju að þurfa að kaupa mér eitthvað tilbúið út í búð (það endar sjaldnast vel, haha). Í febrúar byrjaði ég svo í polefitness sem kveikti áhugann hjá mér á því að verða sterkari. Hægt og rólega fór ég að taka fleiri og fleiri æfingar í viku. Bara vegna þess að áhuginn kviknaði og mér fór að þykja gaman að æfa. Bæði fara í ræktina og mæta í polefitness tímana. Ég byrjaði að prófa jóga og allskonar skemmtilega tíma og fékk líka áhugann á því að verða liðug og hafa þol. Leið og beið og kom þá að því alræmda páskafríi. Ég var mjög meðvituð um að árið áður hefði ég dottið út í páskafríinu og passaði vel að það myndi ekki gerast í þetta skiptið. Ég tók æfingu alla dagana í páskafríinu, nema á páskadag. Bara til þess að passa upp á að detta ekki út. Í stuttu máli hef ég verið að æfa síðan. Reyna að velja hollari kostinn og hef náð mjög vel að stjórna ofátinu sem ég átti mjög erfitt með árin á undan.

Nóvember 2018 vs. febrúar 2018

Hér sit ég aðeins 6 kílóum léttari að skrifa þetta, en munurinn á mér andlega og líkamlega er gígantískur. Ég reyni að láta vigtina ekki hafa áhrif á mig, reyni frekar að sjá í spegli árangurinn. Þegar ég byrjaði að hreyfa mig í janúar ’18 þá var ekki til arða af vöðvum á mér og öll þyngdin mín var fita. Ég veit fyrir víst að vöðvar eins og gluteus maximus (eða rassvöðvinn) er mjög þungur og hann hefur örugglega fjórfaldast á þessum tíma. Vöðvar eru mikið þyngri en fita svo það væri óraunhæft að sækjast endalaust eftir að léttast á vigtinni þegar ég er að styrkja og stækka vöðvana svona mikið. Ég borða venjulegan heimilismat og notast ekki við neina kúra. Ég reyni að hafa hádegismatinn minn léttan og borða morgunmat og millimál áður en ég fer á æfingu og svo borða ég venjulegan heimilismat í kvöldmat eftir æfingu. Alltaf í hollari kanntinum þó, ef ég ætla að leyfa mér að fá mér pizzu eða nammi eða álíka mjög óhollan mat þá reyni ég alltaf að fara á æfingu fyrr um daginn og borða það óholla svo um kvöldið.

Feb 2018 vs. október 2018

Ef þessi færsla getur hjálpað einni manneskju að breyta hugarfarinu sínu og forendum þess að æfa og borða hollt þá er takmarki mínu náð.

 Að ein manneskja ákveði að breyta lífstílnum sínum til frambúðar til þess að verða heilbrigð á sál og líkama í stað þess að falla inn í einhverja fegurðarstandarda. Að hreyfa sig afþví að maður elskar líkamann sinn og vill allt það besta fyrir hann. Ekki afþví að maður hatar hann eins og hann er.

2014 vs. 2018

Hér eru nokkur tips sem ég hef lært á þessari vegferð og langar mikið að deila með ykkur. Ég vil samt taka fram að ég er ekki búin að vera í neinu námi sem tengist líkamsrækt. Þetta eru bara tips sem hafa gagnast mér í gegnum þetta langa ferli sem ég hef farið í gegn um til að komast á þann stað sem ég er á núna. Hreyfi mig 5x í viku, hleyp upp á fjöll þegar ég fæ einhvern með mér (það verður gert mikið meira af því í sumar!). Er að æfa fyrir hálfmaraþon í ágúst og elska líkamann minn og sjálfa mig og vil allt fyrir sjálfa mig gera svo mér líði vel – andlega og líkamlega.

2016 vs. 2019

*Gera hlutina af réttum forsendum.
*Rækta gott samband við sjálfan sig – margir glíma við sjálfshatur án þess að fatta það.
*Sjálfsást – vilja allt gera fyrir þína sál og þinn líkama.
*Forðast að hugsa of mikið um hvað aðrir eru að afreka og gera.
*Passa upp á andlega líðan og leita sér hjálpar ef hún er slæm.
*Byrja á hausnum áður en maður tæklar restina!
*Hlusta á líkamann og ofgera sér ekki.
*Byrja hægt og byggja sig upp – Róm var ekki byggð á einum degi.
*Í okkar samfélagi er mikil óþolinmæði – alltaf – allstaðar – verum þolinmóð við líkamann okkar og höldum áfram! Ekki gefast upp ef það gengur ekki allt eins hratt og þú myndir vilja.
*Finndu hreyfingu sem hentar þér og þér finnst skemmtileg.
*Byrja hægt að breyta matarræðinu – skipta út fyrir hollari kosti.
*Láta skyndikúra alveg vera – þeir munu ekki endast þér alla ævi.
*Ekki hafa of mörg boð og bönn til að byrja með.
*Ekki berja þig niður fyrir að detta úr af sporinu – njóttu þess og njóttu þess að koma þér aftur á teinana!
*Mundu að þetta er ekki keppni við neinn annan – einungis keppni við sjálfa/n þig að vera betri en í gær.
*Prufaðu að hugsa 10 ár fram í tímann – hugsaðu um hamingjusama, andlega og líkamlega hrausta týpu af sjálfum þér.

Win your own game.

Takk fyrir mig!
Svandís Þóra

Back To Top
×Close search
Search