skip to Main Content
Stundum Bara Nóg Að Vita Að Einhver Hafi Verið Að Hugsa Til Manns.

Stundum bara nóg að vita að einhver hafi verið að hugsa til manns.

Það er kominn svolítill tími síðan að ég skrifaði færslu, enda hefur verið mikið að gera. Álagið er farið að minnka frá skólanum og sumarfríið byrjað með tilheyrandi vinnu.

Svo gat maður ekki beðið eftir því að verða fullorðinn. Lætur mann hugsa til tímans þegar maður fékk 2+ mánuði á sumri í sumarfrí haha.

En með miklu álagi og miklu stressi fylgir oft kvíði, eða svoleiðis hef ég yfirleitt upplifað það. Kvíðinn er mismunandi mikill og hann er mismunandi sterkur. Ég get ekki sagt frá því fyrirfram hversu mikill kvíðinn verður og ég get ekki sagt hvenær hann kemur.

Kvíðinn kemur óboðinn, bankar á dyrnar og hleypir sjálfum sér inn.
Hann læðist aftan að manni og grípur mann svo að maður finnur vart fyrir honum fyrr en hann er farinn að hafa áhrif á mann.

Eða að minnsta kosti vil ég túlka það svona, en misjafnt hvernig það er hjá hverjum og einum.

Mér þykir mjög gott að hafa fólk í kringum mig, ef ekki í kringum mig að þá finnst mér gott að hafa einhvern að tala við í síma þessvegna. Þó að ég geti líka verið einfari og vil oft gera hlutina eins og ég vil, þá finnst mér samt betra að vera innan um fólk.

Annars finnst mér ég eiga á hættu á að einangra mig og tala þá við fáa. Þá hef ég mig ekki í að hringja í neinn, því þú veist … um hvað ætti ég að tala ? Mig skortir einbeitingu til þess að finna umræðuefni sem ég á undir venjulegum kringumstæðum ekki erfitt með. Ég upplifi mig eins og ég sé frekar að trufla með innihaldslausu símtali því ég hef ekkert merkilegt að segja, engar fréttir að færa.

Það eru flest allir uppteknir með sína eigin líðan og sitt eigið líf, svona er þetta þegar maður er komin á þennan aldur. Flest allir með börn, fjölskyldu og heimili sem þarf að sjá um.

Það er allt í lagi, ég skil það. 

En ef það er einhver að lesa þessa færslu að þá langaði mig bara að koma eftirfarandi skilaboðum frá mér. Ef þú átt foreldri, systkini, náið frændfólk, börn, vini, maka eða einhvern sem hefur verið að kljást við einhvað. Ekki bíða eftir að viðkomandi hringi í þig því þér finnst vera komið að honum því „að þú ert alltaf sá sem að hefur samband“.

Ef þú ert að hugsa til viðkomandi og langar til þess að heyra í honum, burt séð frá því hver hringdi síðast.

Hringdu þá

Stundum langar mig að taka upp síman og hringja í vini mína en ég bara hef mig ekki í það. Ekki af því að mér finnist viðkomandi leiðinlegur eða finnist það vera einhver kvöð að tala við hann. Ekki afþví að ég sé að hundsa viðkomandi og vilji ekki hringja eða hitta hann. Ekki afþví að ég er að bíða eftir að hann hringi í mig, því að mér finnist vera komið að honum að hafa samband.

Þegar ég er eins stemmd og núna í dag þá er það erfitt verkefni að taka upp símann, hringja og spjalla. Það mun ekki vera þannig það sem eftir er, kvíði kemur í bylgjum og er mis lengi að fara yfir. En mér þykir ofboðslega vænt um þegar hringt er í mig og athugað með mig, hvað sé að frétta o.s.frv.

Svo þegar ég er betur stemmd og ekki undir þeim kringumstæðum sem ég er í dag, en veit að t.d. vinkona mín er að eiga erfiðan tíma. Þá hringi ég vegna þess að ég veit hvernig það er að vera þar, ég veit hvernig það er að geta ekki tekið upp síman, hringt og talað um lífið eins og allt sé í himnalagi.

Þó að ekkert hafi komið fyrir og mig langi jafnvel ekkert að tala um mína líðan
að þá er stundum bara nóg að vita að einhver hafi verið að hugsa til manns. Það nægir mér að hlusta á hinn aðilan, vita hvað sé að frétta af viðkomandi og vera til staðar :). 

Svo að ég ákvað það fyrir mig að hringja í foreldra mína, systur mínar, vinkonur og aðra í kringum mig, senda á þau eða hitta þegar ég hugsa til þeirra.

„Hæ, mér varð hugsað til þín. Hvernig hefur þú það ?“. 

Litlu hlutirnir í lífinu skipta oft mestu máli.

Kveðja,

 

Katrín Helga

Katrín Helga - 25 ára - Móðir - Sjúkraliði - Stúdent - En mest að öllu ég sjálf :)

Back To Top
×Close search
Search