skip to Main Content
Systkini.

Systkini.

Þau eru ekki alltaf sammála, ónei.
Þau eru svo ólík að það koma gríðarlega oft upp ágreiningar á heimilinu. Með nokkru handapati leysast þeir nú fljótt.

Hún er eins og stormsveipur. Upp um allt og út um allt og bróðir hennar verður oft fyrir henni.
Hann aftur á móti er útsmoginn tækifærissinni þegar kemur að systir hans.

Þau eru alsystkini. Af nákvæmlega sama holdi og blóði. Hvers vegna eru þau þá svona ólík?

Hér á árum áður lögðu sálfræðingar miklar áherslur á að rannsaka áhrif foreldra á börn, en þeim flestum misfórst að rannsaka áhrif systkina.

Robert Plomin birti á tíunda áratugnum rannsókn um akkúrat þetta.

Sálfræðingar höfðu rannsakað systkini og miðað þá við þrjár meginreglur; líkamlega eiginleika, upplýsingaöflun og persónuleika.

Niðurstaðan úr þessari rannsókn er mjög áhugaverð. Systkini eru nefnilega ólíkari heldur en tvö óskild börn. Magnað.

Þrátt fyrir að deila sömu genum, foreldum, búa undir sama þaki og fara eftir sömu reglunum eru systkini talin einungis líkjast hvort öðru um 20%.

Þessi 20% komu mér á óvart þegar ég fyrst heyrði þessa tölu. Ég hefði haldið að hún væri hærri.
Ég hugsaði alltaf með mér að utanaðkomandi áhrif hefðu einna mest áhrif á þróun og þroska persónuleika barna, og börn sem alast upp á sama heimili væru nú með sömu utanaðkomandi áhrif.

En svo stoppaði ég mig af og fór að hugsa.

Þau eru ekki jafn gömul og eru þar af leiðandi ekki á sömu deild í leikskólanum, þar er eitt atriði. Þau eiga ekki sömu vini, annað atriði. Þau stunda ekki sömu íþróttina, þriðja atriðið. Þau eru ekki af sama kyni, fjórða atriðið. Svona gæti ég haldið lengi áfram.
Þegar upp er staðið skiptir voðalega litlu máli að þau búi á sama stað og deili sömu genum.

En, þegar ég horfi á þessi ofboðslega ólíku systkini finnst mér þau samt svo lík. Þau eru bæði með svo ofboðslega auðveldan og fyndin húmor. Þau eru bæði með svo rosalega sterka réttlætiskennd. Þau eru bæði svo ofboðslega hjartahlý. Þau elska hvort annað svo mikið, skilyrðislaust – yfirleitt alltaf!

Þrátt fyrir allt sem er ólíkt með þeim eru þau svo sannarlega systkini.

Aníta Rún Harðardóttir

Tuttugu og eins árs, tveggja barna móðir og búsett á Selfossi:)

Back To Top
×Close search
Search