skip to Main Content
Ég Vildi Að ég Hefði Sagt Eitthvað

Ég vildi að ég hefði sagt eitthvað

Ég fór í bónus um mánaðamótin eins og örugglega 90% þjóðarinnar gerir. Amilía Máney stelpan mín sem er að verða 4 ára eftir 3 mánuði var með mér. Ég var búin að gera mér grein fyrir því að það yrði mikil örtröð og vissi vel að stelpan mín myndi ekkert vera í miklu stuði eftir langan dag í leikskólanum. Hvað þá að þurfa að fara svo út í mikið áreiti, en við þurftum að versla í matinn fyrir helgina.

Á leiðinni í bónus sagði ég henni að við ætluðum fyrst að fara í hagkaup að skoða dótið

Við gerum það oft saman þegar ég fer í bónus með Amilíu því þó við kaupum ekki alltaf eitthvað þá finnst henni mjög gaman að skoða dótið. Í þetta sinn fékk hún reyndar dót afþví hún er búin að vera dugleg að fylgja umbunarkerfi sem er í gangi heima sem snýst um að hún sofi í sínu rúmi.

Ég reyni að vera sáttarsemjari og að skoða dótið í 20 mín er nóg til þess að Amilía verði svo vel upplögð í að versla síðan í matinn. Þá er hún glöð, ég glöð og allir sáttir, win win dæmi. Því henni finnst ekkert brjálæðislega skemmtilegt að versla í matinn.

„Amilía Máney“

 

Ég varð vitni af mjög svo leiðinlegum atburði sem mér finnst ég verða að koma frá mér.

Það var móðir sennilega með vinkonu sinni og sirka 3-4 ára barni sínu í bónus. Barnið var alveg greinilega mjög þreytt, leið illa og var hangandi á mömmu sinni að suða um eitthvað. Móðirin var ekki að gefa eftir sem mér finnst alveg 100% skiljanlegt, börn eiga ekki að fá allt sem þau vilja.

En það sem snerti mig var að þegar móðirin var orðin mjög pirruð á barninu sagði hún við barnið „Það er bara ekki hægt að fara með þig í búð þú ert alveg snar geðveikt barn“. Ég stoppaði í smá stund og hugsaði það getur ekki verið að ég hafi heyrt rétt. Barnið fór um leið að gráta, mamman sagði þá við vinkonu sína „Ég bara get þetta ekki, þetta barn er alveg snar geðveikt“.

Það sem mér fannst furðulegast við þetta var að móðirin var ekkert að fela orð sín, hún talaði mjög hátt og skýrt og vinkona hennar var ekkert að stoppa hana af. Ég fékk vægt sjokk við heyra þessi orð koma út, en ég hélt síðan bara áfram að versla.

Þegar ég kom heim gat ég ekki hætt að hugsa um þetta

Ég fór að pæla afhverju sagði ég ekki neitt? Hefði ég átt að segja eitthvað? Hefði það ekki bara orðið að rifrildi? Ég komst að þeirri niðurstöðu að já ég hefði átt að segja eitthvað, því þetta var ekkert annað en andlegt ofbeldi í garð barnsins. Ég hefði getað sagt “ Afsakið en það er ekki við hæfi að kalla barnið sitt snar geðveikt þó svo að það sé ekki að haga sér eins og þú vilt að það hagi sér“.

Ég er bara búin að eiga mjög erfiða viku andlega og lagði það hreinlega ekki á mig að fara að þræta við móður sem ég þekkti ekki neitt í Bónus.

Það sem ég hefði viljað sagt er:

„Kæra móðir ég veit að lífið getur verið helvíti, það eiga allir mis góða daga og það getur komið fyrir að það bitni því miður á börnunum okkar, stundum á einhvern hátt. En það er alls ekki í lagi að kalla barnið sitt snar geðveikt, það er virkilega illa gert og niðurlægjandi, hvort sem það er á almanna færi eða ekki. Þetta er andlegt ofbeldi og á ekki að líðast hjá neinum. Við sem foreldrar höfum það hlutverk að móta börnin okkar og gera þau klár út í lífið. Það segir sig sjálft að þessi lýsingarorð eru alls ekki uppbyggjandi fyrir neinn. Þér hlítur að líða virkilega illa og ættir að leita þér aðstoðar fyrir bæði þig og barnið þitt, svo ykkur geti liðið betur. Ég hef eitt ráð, teldu uppá 10 áður en þú segir eitthvað heimskulegt aftur þegar þú verður pirruð, það virkar fyrir mig og marga aðra hef ég heyrt. Eigðu góðan dag“.

Ég hef heyrt mæður kalla börnin sín frekjur og óþekk og  hótað börnunum að fara út í bíl ef þau hegða sér ekki eins og foreldrar vilja að þau geri á almanna færi. En þessi orð „snar geðveikt barn“ er næsta stig og það finnst mér vera langt yfir línuna. Mig langar að opna augu fólks og vona að þessi færsla fái einhvern til þess að segja eitthvað við foreldra sem haga sér svona. Þó það sé vinur/vinkona þín sem þú þarft að lesa yfir.

þangað til næst.

 

Back To Top
×Close search
Search