skip to Main Content
„Mamma þú Ert Alltaf Best“

„Mamma þú ert alltaf best“

Að vera móðir er eitthvað sem þú munt aldrei skilja almennilega fyrr en þú ert sjálf orðin móðir

Að verða móðir þýðir að líf þitt mun breytast til frambúðar, þú ert kominn í nýtt hlutverk og það er út ævina. Það er engin dagur eins og þú veist aldrei við hverju þú mátt búast. En eitt veit ég að mæður hugsa alltaf fyrst um barnið.

Það er ekki hægt að vera fullkomin móðir, eða það held ég ekki. Við rekumst alltaf á eitthvað sem okkur fannst kannski, ekki alveg jafn sniðugt eftiá. oft er gott að læra af reynslunni. En það er einmitt það sem er svo æðislegt við mæðrahlutverkið, hvað við lærum mikið af því.

Að vera móðir fyrir mitt leyti þýðir að ég á barn sem er ferðafélagi minn í lífinu

Ferðafélagi sem er sá yndislegasti, fallegasti, flottasti, frábærasti, (stundum mest pirrandi), skemmtilegasti, duglegasti, fyndnasti, ótrúlegasti, skrítnasti, ákveðnasti, orkufyllsti og besti ferðafélagi í heimi. Þó ég eigi barn þá stoppar hún mig ekki í lífinu, ég geri allt sem mig langar til innan skynsemismarka auðvitað.

Dagarnir eru mismunandi eins og hjá öllum og stundum hreinlega nenni ég ekki að vera móðir í smá tíma. Suma daga langar mig bara að fara að gráta eða þykjast vera með niðurgang og loka mig inni á klósetti, þá er mikilvægt að koma sér út að hitta vini eða gera eitthvað barnslaus. Mér þykir alltaf jafn vænt um barnið mitt þrátt fyrir að ég þurfi stundum smá frí. En sem betur fer eru ekki allir dagar eins og dagurinn eftir slæman dag er yfirleitt svo mikið betri.

Það er svo mikilvægt að setja sjálfan sig í fyrsta sæti stundum og njóta lífsins.

Að verða móðir:
þýðir ekki að þú þurfir að vera „föst“ allan sólarhringinn hjá barninu
það þýðir ekki að þú getur ekki hafið eða klárað nám,
það þýðir ekki að þú getur ekki farið í foreldrafrí,
það þýðir ekki að þú komist ekki að hitta vini þína,
það þýðir ekki að þú getur ekki látið drauma þína rætast.

Auðvitað þarf að hagræða pössun ef hitt foreldrið er ekki til staðar, oftast er hægt að koma barni/börnum í pössun með fyrirvara. Krakkarnir hafa líka gott af því að losna stundum við foreldrana sína. Allavega mitt barn.

Það er svo gott að kyssa og knúsa stelpuna mína hún er best

Stelpan mín er 4 ára, ég spurði hana um daginn þegar ég var að kyssa hana á ennið „finnst þér pirrandi þegar mamma kyssir þig og knúsar mikið?“ hún svaraði “ nei mamma það er gott“. Svo ég mun halda áfram að kyssa og knúsa hana alveg þangað til hún er við það að gubba úr kærleik. Afþví svo kemur tímabilið „æji mamma nenniru að hætta að kyssa mig“.

„Að vera móðir er bæði það besta, skemmtilegasta og erfiðasta og mest krefjandi verkefni sem ég hef fengið í lífinu. Það er engin að fara að segja þér að þetta verði auðvelt því það er ekki inni í myndinni“

Um daginn langaði mig t.d. að taka helvítis hvolpasveitar-diskóljósið með ógeðslega skerandi hljóðinu og henda því í ruslið eftir heilan dag þar sem þetta var aðal leikfangið og auðvitað ekki slökkt þegar ég bað um það. En í staðin setti ég það í geymslu og það verður tekið upp á Ljósanótt og ég sagði stelpunni minni það, spurning hvort hún muni muna eftir þvi. Alveg ótrúlegt hvað þetta barn man allt sem maður segir við hana.

Þetta er allt þess virði

Erfiðleikarnir eru allir þess virði þegar ég heyri setninguna „Mamma þú ert alltaf best“ ég bráðna í hvert skipti og ég er svo heppin að fá að heyra þessi orð oft á dag því dóttir mín er svo innileg og alls ekki hrædd við að sýna tilfinningarnar sínar.

Það er gott að vita að maður sé að gera eitthvað rétt í þessu uppeldi, því stundum líður mér eins og ég sé bara alveg úti að aka í þessu hlutverki. Ég held að flestar mæður upplifi það stundum að finnast þær ekki „nógu“ góðar mæður, en við erum BESTAR.
Við getum allt, við erum mæður!

 

Mamma elskar þig Amilía Máney ❤

Back To Top
×Close search
Search