skip to Main Content
Skemmtilegar Samverustundir Fyrir Haustið

Skemmtilegar samverustundir fyrir haustið

Haustlægð er orð sem flestir Íslendingar kannast við. Þessar elskur fylgja haustinu hjá okkur og verða oft mjög tíðir gestir hér á landi. Þessu fylgja tafir á samgöngum, fljúgandi furðuhlutir og oft útköll björgunarsveita. Á sama tíma og margir bölva þessum lægðum eru þær eitthvað svo kósý og róandi. Þær minna mann á að sumarið er á enda og veturinn handan við hornið með öllu því sem honum fylgir. Það er þó stundum þannig að fólki leiðist þegar þessar lægðir banka upp á. Ég tók því saman stuttan lista yfir hluti sem gaman væri að dunda sér við hvort sem er með fjölskyldunni, vinum eða ein/nn.

1. Spilastund

Það er ótrúlegt hvað krökkum finnst gaman að spila! Hvort sem það eru þessi klassísku spil sem allir kunna, Veiðimann, Olsen – Olsen, Þjófur eða eitthvað nýtt spil þá er þetta frábær dægrastytting. Svo má auðvitað ekki gleyma að það er til helling af skemmtilegum borðspilum eins og Gettu Betur, Heilaspuni, Ticket to ride og fullt af fleirum. Það er því spurning að hóa saman nánustu fjölskyldu eða vinum á spilahitting í næstu lægð. Ef þú vilt hins vegar vera ein/nn er t.d. hægt að leggja kapal bæði með spilum og á netinu.

2. Kósýstund yfir mynd/þáttum

Það þekkja flestir hversu góð tilfinning það er að leggjast upp í sófa, með teppi og taka maraþon yfir sjónvarpinu. Þessi tilfinning verður eitthvað svo miklu betri þegar vindurinn hvín og veðrið er kalt. Það er til óheyrilegt magn af myndum og þáttum inn á þeim veitum sem Ísland hefur bæði Sjónvarp símans premium eða Stöð 2 maraþon. Síðan má auðvitað alltaf draga upp DVD eða jafnvel gamla vídíóspólu! Þetta er eitt af því sem hægt er að gera ein/nn með sjálfum sér eða bjóða nánasta fólki í kóýsbíóstund.

3. Skoða og rifja upp gamlar minningar

Það er ótrúlega skemmtilegt að setjast niður og rifja upp gamlar minningar. Það er líka hægt að gera þetta á svo margan hátt. Margir eiga gamlar ljósmyndir heima hjá sér sem hægt er að skoða, aðrir eiga vídíóupptökur og enn aðrir teikningar og fleira. Tíminn getur liðið alveg ótrúlega hratt þegar maður sest niður og skoðar barnamyndir af sjálfum sér og öðrum fjölskyldumeðlimum, einkunnarspjöld úr skóla og handverk.

4. Dunda sér í eldhúsinu

Eldhúsið er frábær staður til þess að eyða tíma í haustlægðinni. Það er til heill haugur af uppskriftum sem gaman er að prófa sig áfram með bæði í bakstri og eldamennsku. Ég persónulega elska að eyða tímanum mínum í eldhúsinu, en mér finnst fátt skemmtilegra en að prufa mig áfram með alls konar uppskriftir. Ég nota mikið síðunna hjá Evu Laufey Kjaran en hún er með alveg frábærar uppskriftir. Önnur síða sem ég hef gaman af er Gulur, rauður, grænn og salt en þar geturðu fundið haug af uppskriftum fyrir öll tilefni. Það er líka gott að hafa í huga að það er ekkert sem bannar að breyta uppskriftum og gera það meira að sinni eigin!

5. Breyta til á heimilinu

Hver elskar ekki að breyta til ? Jú það er smá tími og vinna sem fer í það en þá er um að gera að nýta haustveðrið! Þú getur valið hvort þú ætlar í stórar breytingar eins og að tæma allt og mála, eða minni breytingar eins og að snúa við einu herbergi eða svo. Breytingar geta verið mjög skemmtilegar með góða tónlist og enn betri í góðum félagsskap.

6. Föndur/Handavinna

Prjón, saumur, fingramáling, teikna bara hvað sem er! Það er virkilega kósý að eyða tímanum í að dunda sér í handavinnu og það má að sjálfsögðu finna eitthvað fyrir alla aldurshópa. Kynslóðir geta safnast saman og haft notalega stund yfir góðum kakóbolla, búið til eitthvað skemmtilegt og eignast minningar saman.

 

 

Ég ætla að láta þessa upptalningu duga í bili. Þess þarf auðvitað ekki að taka fram að þessar hugmyndir er hægt að nota þó veðrið sé ekki vont – bara ef maður hefur áhuga á smá kósý.

Kertaljós og góður kakóbolli toppar þessar stundir auðvitað alveg og því ætla ég að enda þessa færslu að á deila með ykkur uppskriftinni af kakóinu sem ég bý alltaf til:

2. msk kakó
2. msk sykur (má alveg minnka bragðast ekkert verr!)
Smá vatn
Mjólk eftir smekk

Byrjaðu á því að hræra saman kakódufti og sykrinum. Bættu í pottinn vatni svo úr verði frekar þykk leðja. Hrærðu á meðalhita þar til allir kekkir eru farnir og blandan er farin að mynda litlar búbblur. Bættu þá við mjólkinni. Þegar ég hef verið að gera þessa uppskrift fyrir 3 er ég oft að nota svona 2-3 dl af mjólk. Borið fram með þeyttum rjóma og smá súkkulaðispæni á toppinum! 

 

Vonandi verður haustið ykkar yndislegt!
Þar til næst 

 

 

 

Stefanía Hrund Guðmundsdóttir

21 árs gömul, búsett á Reyðarfirði. Er stúdent af félagsfræðibraut - félagsgreinarlínu úr FSu. Vinn á N1 á Reyðarfirði samhliða fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri en þar er ég að læra Fjölmiðlafræði. Helstu áhugamálin mín eru söngur, skrif, eldamennska og ljósmyndun.

Snapchat - stefaniahrund
Instagram: stefaniahrund97

Back To Top
×Close search
Search